Það er alltaf fagnaðarefni að eiga afmæli og vilja flestir að það gerist með reglulegu millibili í þeirra lífi þó svo að margir kjósi að fagna því ekki sérstaklega. Á dögunum gerðist það þó að okkar menn, Gunnar og Snæbjörn, áttu áttræðisafmæli með nokkurra daga millibili.
Eins og mörgum er kunnugt eru Gunnar og Snæbjörn stofnendur Ferils ehf., verkfræðistofu, og lögðu grunn að því sem Ferill er í dag. Sagan segir að ákvörðun um stofnun verkfræðistofunnar hafi verið tekin á vindsæng í Flórída árið 1977 og fyrir þá sem eiga erfitt með að ímynda sér atburðinn þá fylgir sögunni að þeir hafi verið á sitt hvorri vindsænginni.
Það má segja að þrautsegja, ósérhlífni og dugnaður hafi einkennt þeirra störf á löngum og farsælum ferli í verkfræðiráðgjöfinni og við sem yngri erum getum enn í dag horft til þess í okkar störfum. Nú er heldur betur kominn tími til að njóta hvíldar, sem þeir eiga sannarlega skilið. Það er að vísu eins með hvíldina og öll störfin sem þeir sinntu, það er enginn að sinna því fyrir þá. Við óskum þeim Gunnari og Snæbirni innilega til hamingju með afmælin og þökkum gjöfult og gott samstarf. Njótið hvíldarinnar.