Þann 10. mars síðastliðinn var fyrsta skóflustunga tekin að nýjum höfuðstöðvum Garðheima að Álfabakka 6. Þar stendur til að byggja glæsilega garðyrkjumiðstöð, verslun, fagmannaverslun og lager. Vínbúðin, Spíran og Garðheimar munu gera framhald á samstarfi sínu og þau fyrrnefndu flytja með í nýju bygginguna. Um er að ræða 7.000 fm stálgrindarhús ásamt útisölusvæði á 20.000 fm lóð sem liggur við rætur Seljahverfisins og niður að Reykjanesbrautinni. Byggingin verður að miklu leyti klædd samlokueiningum og gleri en hússkrokkurinn kemur frá hollensku fyrirtæki að nafni Smiemans en þeir eru stórir á gróðurhúsamarkaðnum í Evrópu. Ferill hannar undirstöður, lagnir og raflagnir auk þess að verkefnisstýra verkinu. Við erum þarna í góðum hópi hönnuða en arkitektar eru PK arkitektar og Hafstudio en lóðin er hönnuð af Landslagi landslagsarkitektum. Áætluð verklok eru í mars 2023.