Ferill í Þríhnúkagíg

Laugardagsmorguninn 2.október 2021 hittust starfsmenn Ferils við Breiðabliks skálann í Bláfjöllum og héldu í gönguferð upp að Þríhnúkagíg. Þríhnúkagígur er stærsti gígurinn í gígaröð sem staðsett er vestur að skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Gangan var létt og skemmtileg og tók u.þ.b 40 mín. Þegar við komum á áfangastað tók starfsfólk 3H Travel á vel á móti okkur í upphituðum skála, þar sem við gæddum okkur á kaffi og kakó og fórum yfir öryggisbúnaðinn og söguna um gíginn. Svo var ferðinni heitið ofan í gíginn sem er í rauninni tómt kvikuhólf og er talið vera eitt af merkustu náttúrfyrirbærum sinnar tegundar á jörðinni. Gígopið er þverhnípt og um 4 sinnum 4 metra stórt og sigið var í lyftu niður um opið og niður á gígbotninn sem liggur á 120 metra dýpi. Botninn sjálfur er á stærð við fótboltavöll. Hver hópur var í ca 30mín ofan í gígnum og gat fólk gengið og brölt um eftir ákveðnum leiðum og virt fyrir sér þessa ótrúlegu litadýrð í upplýstu berginu. Þegar upp var komið var okkur svo boðið upp á ljómandi góða kjötsúpu sem var alveg fullkomið eftir ferðina ofan í gíginn.
Þessi ferð var í alla staði frábær, og óhætt er að mæla með því að skella sér í þessa ferð með 3H Travel og upplifa þennan magnaða helli.

Skildu eftir svar